Monday, January 14, 2008

Philadelphia

Erum búin að vera í Philadelphia í heimsókn hjá Ernu og Hlyni síðan á föstudaginn. Þau eru búin að vera frábærir gestgjafar, mæli með að kíkja í heimsókn til þeirra :). Philadelphia er stórmerkileg borg meðal þess sem borgin er fræg fyrir er að Benjamin Franklin er grafin hérna, þetta var fyrsta höfuðborg bandaríkjanna, University of Pennsylvania er hérna en það er elsti háskóli Bandaríkjanna, hér var fyrsti ameríski fáninn saumaður (af konu Benjamin Franklin), Liberty bell er hérna og síðast en ekki síst þá eru tröppurnar frægu hérna þar sem Rocky hljóp upp og niður til að koma sér í form. Erna og Hlynur eru búin að þramma með okkur útum allt og sýna okkur alla helstu staðina. Fórum m.a. í gær í dýragarðinn hérna, sem er elsti dýragarður Bandaríkjanna, þrátt fyrir að fílarnir, gírafarnir og aðrar hitabeltisskepnur hafi verið færð á hlýrri stað yfir veturinn kom hann skemmtilega á óvart, fullt af skemmtilegum dýrum. Það er samt alltaf hálf sorglegt að sjá dýr í búrum en dýragarðurinn var samt ágætlega útbúin. Við pössuðum okkur að reita tígrisdýrin ekki til reiði ;). Við erum búin að vera dugleg að prófa ameríska matseld hérna m.a. starbucks, Philly Cheese Steak, Stromboli og Muffins auk þess að prófa amerískan bjór sem bragðast bara ágætilega. Mæli með Yuengling. Á laugardagskvöldið fórum við á ekta amerískan Comedy Club Helium, þar sem við sátum í 1,5 tíma og hlógum eins og vitleysingar af þremur uppistöndurum m.a. Kevin Brennan (sem á að vera frægur) sem gerðu grín af typpum, Grays anatomi, ameríkönum, konunum sínum og sjálfum sér. Grínið var nú samt ansi oft á mörkunum og maður vissi ekki alveg hvort maður átti að hlægja eða ekki.
Í kvöld yfirgefum við öryggið í Philly og höldum af stað á vit ævintýranna til Mið-Ameríku.

1 comment:

Anonymous said...

Góða ferð á fátækari slóðir ;) Ég er með ykkur í anda. Sérstaklega núna þegar er brjáluð snjókoma og bara kreisí veður hérna á Íslandi.

Knús, Jóna